What is Nostr?
eirikur /
npub1m8k…dr5w
2024-09-16 19:54:47

eirikur on Nostr: Vextir voru lengi vel bannaðir í Evrópu á tímunum eftir krist. Þá voru helstu ...

Vextir voru lengi vel bannaðir í Evrópu á tímunum eftir krist. Þá voru helstu rökin gegn vöxtum, eða öllu heldur því að fá meira til baka en þú lánaðir út, að peningur væru dauður hlutur sem skapaði ekkert, heldur miðluðu aðeins virði, þ.e. þjónaði tilgangi skiptimiðils (e. medium of exchange). En sú kenning á rætur sínar að rekja til Aristotle.

Aristotle var mótfallinn allri framþróun og því að hagkerfi mannsins breyttist og óx, en hagfræðingar seinni tíðar hafa einmitt bent á að slíkt krefst þess að halda þurfi aftur af fólki með þvingunum og alræði. En þessar kenningar Aristotle höfðu mikil áhrif á skoðanir páfa, presta og klerka á miðöldum. Þó er hægt sé að vitna í Matthew 25:14-30 til að réttlæta að vextir séu enginn þjófnaður. Einnig eru vextir fordæmdir skv. íslamskri trú, sem ég þekki ekki nógu vel söguleg rök fyrir.

Seinni tíma hagfræðingar skilgreindu betur rök fyrir vöxtum, og þá má sérstaklega nefna Anne Robert Jacques Turgot. En Turgot fordæmdi það að banna vexti, því vextir væru viðskiptasamningur milli þess sem lánar út sitt fé og þess sem þiggur það fé.

Þá er mikilvægt að gera grein fyrir því að peningar voru ekki búnir til og prentaðir af ríkinu og seðlabönkum þess á þessum tímum, slíkt hefði sennilegast hljómað sem afleidd hugmynd í eyrum flestra hagfræðimiðaðra heimspekinga á þeim tíma. Þá var peningur sú vara á markaðnum sem var kosin sem peningur (af aðilum á markaðnum) og bar þar gull sigur af hólmi, því gull sannaði sig sem sú vara sem erfiðast var að búa til í auknum mæli þegar eftirspurn eftir því jókst, enda þynnir slík (auðveld) framleiðsla út kaupmátt þeirra sem nota tiltekinn pening.

Turgot benti á, sem seinni tíma hagfræðingar hafa sammælst flestir um, er að vextir ákvarðast á markaðnum og geta þá sveiflast eftir framboði og spurn á fjármagni. Þá endurspegla vextir tímaval samfélagsins á hverri stundu, þ.e. háir vextir samsvara háu tímavali og lágir vextir lágu tímavali. En til þess að geta lánað út fjármagn þarf viðkomandi að afsala sér því fjármagni um setta tíð, ásamt því að taka áhættu á að fjármagnið skili sér ekki til baka ef það mistekst að nýta það í rekstur sem skilar hagnaði, en þetta ferli er grunnforsenda allrar velmegunnar og því sem við köllum KAPÍTALISMA.

Það má hinsvegar réttilega gagnrýna seðlabanka og miðstýrðar peningastofnanir með öllu móti, því slík fyrirbæri eru mjög ónáttúruleg, og hagnast einmitt alltaf þeim helst sem standa nærst nýja fjármagninu (peningaprentaranum), sem oftast eru einstaklingar eða stofnanir sem ná að festa sín kjör á sem lægstum (tilbúnum) vöxtum. Þannig geta einmitt stórfyrirtæki þrifist vel með sinni einokun því þau eru með hátt sjóðstreymi (e. cash flow), sem veitir þeim aðgang að lánsfjármagni á mun lægri vöxtum en almenningur hefur aðgang að.

Ég vil þá enda á því að biðla til allra sem tala fyrir því að breyta hagkerfi nútímans, og því að leggja nagla í kistu þess sem sósíalistar vilja kalla kapítalisma, sem réttar er að kalla þjófa fiat kerfisins, að kynna sér betur skóla austurrísku hagfræðinnar, sem nálagst viðfangsefnið frá sjónarmiði mannlegrar hegðunar og með það að markmiði að lágmarka ágreining og ofbeldi.

Hægt er að kafa nánar í þessi fræði í bókinni An Austrian Perspective on the History of Economic Thought eftir Murray Rothbard.
https://mises.org/library/book/austrian-perspective-history-economic-thought
Author Public Key
npub1m8kwcukyps63kwjklfdpkf45k3ggc6vyyvyhj0szj70xnq52xcwsrpdr5w