What is Nostr?
eirikur /
npub1m8k…dr5w
2024-04-20 20:28:57

eirikur on Nostr: Bitcoin helmingun Í nótt átti hin svokallaða Bitcoin helmingun (e. Bitcoin ...

Bitcoin helmingun

Í nótt átti hin svokallaða Bitcoin helmingun (e. Bitcoin halving) sér stað og spurja margir sig eflaust að því hvað hún gengur út á og hvaða áhrif hún hefur fyrir Bitcoin kerfið í heild sinni.

Förum aðeins yfir það.



Áður en við kryfjum betur hvað helmingunin gengur út á og hver áhrif hennar eru, að þá er mikilvægt að gera lauslega grein fyrir því hvaða hlutverki minerar gegna í Bitcoin kerfinu.



Til að senda Bitcoin frá aðila A til aðila B að þá þarf að samþykkja þá færslu. Aðili A ákvarðar þá hversu brýnt það er að sú færsla verði samþykkt með því að greiða tilsett færslugjald fyrir, því hærra gjald, því ofar færist hans færsla í forgangsröðinni um að vera samþykkt inn í næstu blokk.

Án þess að fara of tæknilega í hlutina að þá standa minerar í einskonar keppni um að finna lykil að næstu blokk. Til þess þurfa þeir sérhæfðar tölvur sem keyra orkufrekann algóriþma sem gengur í mjög einföldu máli út á að giska á stórar tölur.

Sá miner sem nær að giska á tilsetta tölu finnur þannig lykilinn að næstu blokk sem inniheldur samansafn af þeim færslum sem næstar eru í forgangsröðinni um að verða samþykktar.

Í fundarlaun fyrir að finna lykilinn fær sá miner tiltekið magn af Bitcoin, sem samanstendur af fyrifram tilgreindu magni sem helmingast á 4 ára fresti, ásamt færslugjöldunum sem fylgja hverri færslu.

Bitcoin kerfið er svo þannig hannað að á 2016 blokka fresti (u.þ.b 2 vikur), er erfiðleikastig kerfisins stillt af. Það er að ef blokkir voru samþykktar að meðaltali á minna en 10 mínútna fresti að þá er erfiðleikastigið hækkað, ef það tók lengur en 10 mínutur er það lækkað.

Þetta er gert til þess að viðhalda stöðugleika í kerfinu á því hversu reglulega nýjar blokkir eru gefnar út, sem sveiflast með aukinni eða minkaðri þáttöku minera í kerfinu.

En förum nú að tala um helmingunina.

Á 210,000 blokka fresti (u.þ.b 4 ár), fá minerar helmingi lægri fundarlaun fyrir að finna lykilinn að næstu blokk. Satoshi Nakamoto mine-aði til að mynda fyrstu Bitcoin blokkina, einnig þekkt sem genesis blokkin, 3. Janúar 2009 á sinni eigin tölvu og fékk 50 Bitcoin fyrir.



Þannig hefur kerfið haldið áfram að keyra og hafa fundarlaun minera haldið áfram að helmingast á 210,000 blokka fresti, og átti slíkur viðburður sér stað í gær þegar blokk 840,000 var samþykkt og fékk sá miner 3.125 Bitcoin í verðlaun fyrir.

Þannig munu fundarlaunin halda áfram að helmingast þar til árið 2140 (u.þ.b), þegar búið verður að grafa eftir öllu þeim Bitcoin sem nokkurntíman munu koma í umferð, sem verða þá 21 milljón samanlagt.

Hægt er að lýsa því með eftirfarandi jöfnu hvernig fundarlaun munu verða veitt minerum þar til síðasta brotið úr Bitcoini kemst í umferð.



Hér er sömuleiðis góð mynd sem sýnir hvernig fundarlaunin munu halda áfram að þróast þar til árið 2140 u.þ.b, eftir það munu minerar aðeins fjármagna sig og sína starfsemi á færslugjöldum.



Helmingunin gengur þannig út á hvernig innflæði af nýjum Bitcoin helmingast inn í kerfið á hverju ári, og má til gamans geta að í gær varð verðbólgan í kerfinu undir 1%, sem gerir Bitcoin þar af leiðandi að harðari eignarflokki en gull.

Fyrir áhugasama lesendur sem vilja kynna sér Bitcoin betur mæli ég með því að lesa BA ritgerð Vagns Margeirs Smelt í heimspeki sem fjallar um stafræna peninga. En markmið ritgerðarinnar er að koma auga á og gera grein fyrir vandamálum núverandi peningakerfis.
https://skemman.is/handle/1946/43929

Sömuleiðis vil ég benda á grein sem ég skrifaði fyrir stuttu um hvaða tilgangi peningur þjóna, hvernig þeir verða til og hvað skilgreinir góðan og slæman pening.
https://medium.com/@hodl_ishmael/peningur-b2f3bfa40aa8
Author Public Key
npub1m8kwcukyps63kwjklfdpkf45k3ggc6vyyvyhj0szj70xnq52xcwsrpdr5w